FAGURGERÐI – MATUR // Þessi uppskrift er mögulega vinsælasta uppskriftin á blogginu mínu.
Frænka mín sem býr í Bandaríkjunum gerði þessa köku og fór með í vinnuna. Það er skemmst frá því að segja að kakan vakti gífurlega lukku þannig að ég veit fyrir víst að það eru ekki bara Íslendingar – eða Sandvíkingar – sem fíla þessa köku 🙂
Þessi gulrótakaka er æðisleg góð. Og hún er líka æðislega holl – sérstaklega ef maður notar lífrænar gulrætur, t.d. frá Engi, eins og ég gerði. Þessi kaka inniheldur líka mjög lítið hunang svo að það er engin hætta á því að maður fái sykursjokk. Annars vil ég ekki flokka hunang sem sykur þó að sumir geri það, sérstaklega ef maður notar almennilegt hunang.
Kakan er einföld, saðsöm og bragðgóð. Þrír kostir sem ég met mikils þegar ég bý til hrákökur.
Botninn
2 1/2 bollar rifnar gulrætur
1 bolli valhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1 bolli döðlur (lagðar í bleyti í nokkrar klst eða yfir nótt)
1/2 bolli kókosflögur
1 tsk kanill
smá sjávarsalt
Blandið gulrótunum, valhnetunum, döðlunum, kókosflögunum, kanilnum og sjávarsaltinu vel saman í matvinnsluvél, með töfrasprota eða í blandara. Setjið blönduna í hringlaga kökumót og inn í frysti á meðan þið búið til fyllinguna.
Fyllingin
1 bolli kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
1/4 bolli vatn
3 msk hunang
1 tsk lífræn vanilla
safi úr 1/2 sítrónu
smá sjárvarsalt
1/3 bolli kókosolía, við stofuhita
Blandið kasjúhnetunum, vatninu, hunanginu, vanillunni, sítrónusafanum, sjávarsaltinu og kókosolíunni vel saman í matvinnsluvél, með töfrasprota eða í blandara. Þegar blandan er orðin silkimjúk hellið henni þá yfir botninn og dreifið vel úr. Skreytið með kanil og kókosflögum. Setjið inn í frysti í nokkrar klukkustundir. Ath. Ef kakan er búin að vera lengi í frystinum þá þarf hún að fá að þiðna í sirka 2 klst áður en hún er borðuð. Annars er eins og þið séuð að borða gulrótaís. Hún er svo miklu betri þegar hún er orðin svolítið mjúk og diskarnir ekki í hættu þegar þið reynið að skera ykkur bita með skeiðinni 🙂
Njótið!
johanna@fagurgerdi.is