Sandvíkingur

FAGURGERÐI – MATUR // Þennan smoothie fæ ég mér á hverjum degi. Ég finn mikinn mun ef ég sleppi honum, t.d. ef ég er á ferðalagi. Þetta er einfaldlega – að mínu mati – besti morgunmaturinn og þar af leiðandi frábært veganesti út í daginn.

Flestir gera þau mistök að setja mjólkurvörur og/eða of mikið af ávöxtum í smoothie-inn sinn. Það er fínt að setja 1-2 ávexti í smoothie en megin uppistaðan ætti þó alltaf að vera grænmeti. Kúamjólk er svo hönnuð fyrir kálfa en ekki menn. Ef fólk vill endilega drekka kúamjólk þá ætti það vera ógerilsneydd mjólk, beint úr kúnni. Þannig mjólk inniheldur allavega ensím og góða gerla.

Þessi uppskrift miðast við 2 lítra en svo stór er kannan á blandaranum mínum. Mér finnst best að búa til smoothie fyrir nokkra daga í einu. Þá helli ég í smoothie-inum í tómar kókosolíukrukkur, loka vel og geymi inn í ísskáp. Ef þið eruð með minni könnu þá minnkið þið hlutföllin í samræmi við það.

Ég kalla þennan smoothie Sandvíking því eins og með flest alla Sandvíkinga er hann kraftmikill og fjörugur 🙂

Hráefni:
Hálfur poki af spínati eða heill poki af grænkáli (ég kaupi alltaf frekar grænkál ef það er í boði)
1 stk gúrka
4 sellerístilkar
4 stórar gulrætur (helst lífrænar, fást t.d. í Nettó)
einn „þumall“ af engifer
raspaður börkur af einni lífrænni sítrónu (mjög mikilvægt að sítrónan sé lífræn)
1 stk mangó EÐA 2 stk lífrænar perur (má nota hýðið með ef þær eru lífrænar)
1 stk lífrænt epli
1 stk stórt, vel þroskað, avocado
10 dropar af hreinni stevíu
1 msk kókosvatns duft frá Navitas (má sleppa)

Aðferð:
1. Setjið 2 bolla af köldu vatni í blandarann.
2. Skolið grænkálið/spínatið vel og setjið ofan í blandarann. Ef íslenskt spínat er ekki í boði þá kaupi ég helst spínat frá Hollandi því að ég treysti ekki grænmeti frá Bandaríkjunum og Spáni nema það sé lífrænt. En það er bara ég.
3. Blandið grænkálinu/spínatinu vel saman við vatnið. Það er mikilvægt að byrja á að gera þetta þó að röðin á restinni sé ekki heilög.
4. Saxið gúrkuna gróflega niður og setjið í blandarann og blandið vel.
5. Þvoið selleríið og saxið gróflega niður og setjið í blandarann og blandið vel.
6. Saxið gulræturnar niður, setjið í blandarann og blandið vel. Ef þið notið ekki lífrænar gulrætur þá mæli ég með því að flysja þær fyrir notkun. Nýjar íslenskar gulrætur er þó í góðu lagi með hýðinu.
7. Saxið engiferið (án barkar) og setjið í blandarann. Raspið börkinn af sítrónunni og setjið börkinn (ekki sítrónuna) í blandarann. Blandið vel.
8. Flysjið mangóið EÐA saxið perurnar gróflega niður (án stönguls og steina) og setjið í blandarann og blandið vel.
9. Saxði eplið niður með hýðinu (sleppið stönglinum og kjarnanum), setjið í blandarann og blandið vel.
10. Setjið steviu-dropana og kókosvatnið (það er frostþurrkað og því í duftformi en ekki fljótandi) ásamt avocadoinu (án barkar og steins!) í blandarann og blandið vel.
11. Hellið í glas og njótið.

Eins og fyrr segir þá er röðin ekki heilög, aðalmálið er samt að byrja á því að blanda vatninu og grænkálinu/spínatinu vel saman svo að það leysist upp í frumeindir.

Ég set svo alltaf eftirfarandi í smoothie-inn minn þegar hann er tilbúinn og kominn í glas, en það er alls ekki nauðsynlegt. Ég mæli þó sérstaklega með hempfræjunum:

2-3 msk hempfræ (rík af omega 3 og 6 fitusýrum, amínósýrum, magnesíum, járni, zínki og kalíum)
1 msk Bee pollen (próteinríkt, ríkt af b-vítamínum, fólinsýru, amínósýrum og öðrum vítamínum. Bee pollen inniheldur meira magn af amínósýrum en nautajöt, egg og ostur í sambærilegri þyngd)
1 msk acaiduft frá Navitas (stútfullt af andoxunarefnum, fitusýrum og nauðsynlegum lífrænum snefilefnum)

ATH. Stevia er ekki það sama og stevia. Það er hægt að kaupa steviu sem inniheldur alls konar ógeð. Lesið því innihaldslýsinguna vel. Leitið að steviu sem er merkt „whole leaf stevia“ og er „100% pure“. Forðist allt sem heitir „natural flavors“ – ekki bara þegar þið veljið steviu heldur öll matvæli yfir höfuð. „Natural flavors“ er hannað þannig að við viljum alltaf meira og meira af þeim „mat“ sem inniheldur það efni. Þess vegna eigum við t.d. svo erfitt með að hætta að borða snakk ofl sem inniheldur þetta efni – þetta efni er einfaldlega hannað til þess að við étum yfir okkur af matnum! Heimildarmyndin Hungry for Change (2012) er alveg stórkostleg og útskýrir þetta allt miklu betur. Mæli með henni fyrir alla þá sem hafa áhuga á heilsu og heilbrigði – eða vantar einfaldlega þetta spark í rassinn til að fara að borða hollar.

johanna@fagurgerdi.is

Fyrri greinStjórnuðu leiknum en fengu ekki stig
Næsta greinHamar og Selfoss áfram í bikarnum