FAGURGERÐI – HÖNNUN // Fermingar nálgast nú óðfluga og ég ætla að sýna nokkrar skemmtilegar hugmyndir fyrir stóra daginn.
Til að byrja með þá þarf að huga að hárinu hjá fermingardömunum. Fyrir þær sem fara ekki á hárgreiðslustofur þá eru hér nokkrar hugmyndir af greiðslum sem er vel hægt að gera heima fyrir handlagnar mömmur.
Margir vilja hafa gestabækur í veislunni og það eru til margar hugmyndir af óhefðbundnum gestabókum. Hvítt karton með mynd af fermingarbarninu eða dagsetningunni í miðjunni og svo skrifa gestirnir í kringum myndina og þá er svo hægt að setja kartonið í ramma og hengja upp á vegg í herberginu.
Einnig er hægt að láta skrifa nöfn gestanna á steina og geyma svo í skál eða vasa.
Það er líka sniðugt að láta gestina skrifa skilaboð til fermingarbarnsins og nafnið sitt undir á lítið blað sem er síðan rúllað upp og sett ofan í flösku og verða því flöskuskeyti með fallegum orðum sem alltaf er hægt að glugga í.
Myndagluggar eða “photo booth” eru vinsælir í veislum og auðvelt að útbúa úr kartoni eða með gömlum römmum. Það er líka sniðugt að útbúa # hashtag fyrirfram og láta gesti vita þannig að allir getir svo skoðað myndirnar sem er póstað á veraldarvefinn úr veislunni. T.d. #ferminglindu2015
Til þess að skreyta veisluborðið er gaman að brjóta servietturnar á skemmtilegan hátt, setja glimmer á blöðrur og hengja upp gamlar myndir af fermingarbarninu.
Fleiri hugmyndir má finna á Pinterest síðunni minni ásamt leiðbeiningum um hvernig hægt er að útfæra þær hugmyndir sem ég nefni hér að ofan.