Ef þið elskið súkkulaði þá eru þessar smákökur fyrir ykkur. Þær eru án glútens og eggja og henta því einstaklega vel fyrir þá sem eru með óþol eða ofnæmi fyrir fyrrnefndu. En þið þurfið ekki að vera með óþol/ofnæmi til að hafa ástæðu til að baka þessar smákökur – síður en svo!
Ekki fallast hendur þegar þið komið aquafaba í uppskriftinni – þetta er í alvörunni ekkert mál og þið þurfið ekki að vera einhverjir reynsluboltar með mastersgráður í eldhúsinu til að þetta heppnist. Ef þið getið haldið á handþeytara eða töfrasprota, þá getið þið þetta 🙂
Já, og aquafaba virkar eins og egg – límir þurrefnin saman og kemur í veg fyrir að smákökurnar molni niður við minnstu snertingu – þannig að alls ekki sleppa því.
Hráefni:
- 1 bolli möndlumjöl*
- ¼ bolli kókoshveiti
- 1 plata af dökku súkkulaði, saxað (skipt til helminga – þið notið helminginn til að bræða)
- ⅓ bolli hreint kakó
- ½ tsk vínsteinslyftiduft
- ½ tsk matarsódi
- ¼ tsk sjávarsalt
- ⅓ bolli kókospálmasykur
- 6 stk döðlur, saxaðar (og lagðar í heitt vatn í 20 mín)
- ⅓ bolli aquafaba*
- 3 msk kókosolía, við stofuhita
- ½ tsk vanilludropar
* Þið getið gert ykkar eigið möndlumjöl með því að skella heilum möndlum í kröftugan blandara og blanda þar til möndlurnar eru orðnar að fíngerðu mjöli.
* Aquafaba er vökvinn af kjúklingabaunum. Þið hellið vökvanum í skál og þeytið með töfrasprota eða handþeytara. Þeytið þar til vökvinn er orðinn hvítur og stífur – þannig að þið getið hvolft skálinni án þess að það leki úr. Það tekur sirka 3-6 mínútur að þeyta vökvann þar til hann er orðinn eins og hann á að vera.
Aðferð:
- Setjið allt þurrefnið + döðlurnar (hellið vatninu fyrst af) í stóra skál og blandið vel saman með sleikju.
- Í aðra skál setjið þið vökvann af kjúklingabaunum og þeytið vel, eða þar til hann er orðinn hvítur og stífur.
- Setjið kókosolíuna og vanilluna í skálina með aquafaba og blandið saman með písk.
- Bræðið hinn helminginn af súkkulaðinu í vatnsbaði og setjið saman við vökvann og blandið vel saman.
- Setjið vökvann saman við þurrefnin og blandið vel saman. Deigið ætti að vera frekar klístrað.
- Setjið deigið inn í kæli í 30 mínútur.
- Stillið bakaraofninn á 190° gráður (blástur).
- Setjið bökunarpappír á ofnplötu og setjið sirka ½-1 msk af deiginu á plötuna. Þrýstið ofan á og mótið deigið eins og þið viljið hafa smákökurnar. Passið að hafa þokkalegt bil á milli. Þið gætuð þurft tvær ofnplötur.
- Setjið ofnplötuna inn í ofn og bakið í 12 mínútur.
- Kælið og njótið.