Sumarlegt sólskinssalat

Hvernig væri nú að stökkva út í garð og tína nokkra fífla!

Blöðin eru ljómandi efni í salat og blómin má borða! Þau gera salatið líka svo ljómandi fallegt! Ef þið leggið ekki í fíflana má nota blómin af klettasalatinu þegar það fer að blómstra í beðinu hjá ykkur. Eða fá sér fjólur og skella einni og einni á salatdiskinn hjá sér þegar þannig liggur á manni! Hlutföllin í salatinu eru alveg undir hverjum og einum komin og litirnir geta orðið dásamlegir. Nú er bara að láta sköpunargleðina ráða ferðinni!

Innihald:
Íslenskt klettasalat (best ef það er heimaræktað!)
fíflablöð úr garðinum
lífrænar appelsínur, skornar í bita (það má hafa bland af appelsínum og blóðgrape eða jafnvel ferskjum)
spírur að eigin vali (blanda af grænum og t.d. radísuspírum eða rauðrófuspírum er skemmtileg og litfögur)
gojiber eða þurrkuð blæjuber
valhnetur eða hampfræ
avacado, skorið í teninga/sneiðar (val – getur verið gott t.d. ef maður vill ekki sætar)
ferskar kryddjurtir eins og t.d. timjan eða steinselja, basil, rósmarín.. já eða bara allt í bland!
fíflablóm

Fyrir þá sem vilja gera þetta að matarmeira meðlæti eða að léttum hádegisverð má setja í þetta t.d. sætar kartöflur eða grasker – það er þá skornið í teninga og bakað í ofni með smá olíu og örlitlu af góðu salti… og kannski pipar! Notið hitaþolna gæðaolíu t.d. kókosolíu. Það má gjarnan gera daginn áður og hafa kalt. Svo er líka hægt að nota óútsprungna knúppana af túnfíflunum. Það minnir svolítið á rósakál!

Í rauninni þarf enga dressingu en fyrir þá sem vilja er dásamlegt að skvetta svolítið af valhnetuolíu eða annarri uppáhalds olíu yfir.
Fyrir þá sem alls ekki geta verið án dressingar þá er hér ein fljótleg:

2 msk tahini eða hampfræ
1-2 tsk hunang (eftir smekk)
safi úr 1/2 sítrónu
safi úr 1 appelsínu
ferskt timjan, smátt rifið/saxað (hér má líka nota steinselju eða rósmarín eða jafnvel basilliku eða myntu)
salt og pipar
vatn til að þynna eftir þörfum

Allt sett í blandara eða þeytt saman með töfrasprota eða handpískara þar til vel samlagað. Gott að láta standa smá stund til að það fái að taka bragðið. Athugið að því meira af fersku grænu kryddi sem þið setjið í, þeim mun bragðmeiri verður dressingin og þeim mun grænni og fallegri.

Það má auðvitað líka sleppa græna kryddinu og setja smá turmerkic og fá gula dressingu. Hér eins og áður er um að gera að leika sér! Þannig verða bestu uppskriftirnar til!

Gleðilegt sumar og gangi ykkur vel!

olof@fagurgerdi.is

Fyrri greinMenningarveislan hefst um helgina
Næsta greinRekstur lofthreinsistöðvar hafinn