FAGURGERÐI – MATUR // Þetta brauð geri ég mjög reglulega. Ég fer eiginlega aldrei 100% eftir uppskriftinni (er alltaf að breyta og bæta einhverju við) en segja má að þessi uppskrift sé grunnurinn.
Ég mæli svo eindregið með því að þið lagið uppskriftina að ykkar smekk. Kannski viljið þið minna eða meira krydd bragð – eða viljið nota eitthvað allt annað krydd.
Með þennan grunn getið þið leikið ykkur mjög mikið og þannig á það einmitt að vera í eldhúsinu – maður á að leika sér með hráefnin, svona rétt eins og þegar maður var lítill að drullumalla með vinum sínum 🙂
Hráefni:
2 bollar möndlumjöl, rúmlega (ég notaði lífrænt frá Sólgæti)
1 bolli graskersfræ
1 bolli sólblómafræ
1/2 bolli kókosmjöl
1/3 bolli psyllium husk
3 msk möluð chiafræ
2 msk hempfræ
2 msk herbs provence (eða annað grænt krydd, t.d. oreganó)
1 tsk sjávarsalt
1 tsk hvítlaukskrydd
Svartur pipar
Cayenne pipar
2 bollar kalt vatn
Aðferð:
1. Blandið öllum þurrefnum saman í skál. Setjið nokkra „snúninga“ af svörtum pipar og eins og 2-3 „hristur“ af cayenne pipar. Passið að setja ekki of mikið.
2. Setjið vatnið saman við og blandið vel saman með sleikju.
3. Látið blönduna standa í skál á borðinu í klukkutíma eða svo. Á þeim tíma þenst degið út og verður þéttara í sér – þökk sé psyllium husk og möluðu chiafræjunum.
4. Stillið bakaraofninn á 180°C (með blæstri).
5. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og degið á blötuna. Mótið degið eins og þið viljið (ég geri það svona ílangt því að mér finnst best að skera það þannig).
6. Setjið plötuna inn í ofn í 60 mín. Gott að tjekka á brauðinu eftir 50 mínútur eða svo þar sem bakaraofnar eru mis öflugir.
7. Látið brauðið kólna aðeins áður en það er skorið. Ég mæli svo með því að setja annað hvort heimatilbúið guacamole á brauðið eða þá Raw Superseed Spread frá Biona. Já, eða bara smjör og ost eins og eiginmaður minn gerir 🙂
ATH. #1 Ef þið viljið gera súperbrauðið súper hollt þá er mjög gott að láta sólblóma- og graskersfræin liggja í bleyti yfir nótt og skola svo fyrir notkun. Með útvötnuninni losnar um ensím og fræin verða auðmeltanlegri = nýtast líkamanum betur.
Njótið!
johanna@fagurgerdi.is