Svartbauna brúnkökur

sunnlenska.is/Jóhanna SH

FAGURGERÐI – MATUR // Þessar brúnkökur eru engar venjulegar brúnkökur.

Þær eru búnar til úr svörtum baunum, hafa lágan sykurstuðul, eru glútenfríar, vegan og eru auk þess fáránlega góðar!

Uppskriftin er fengin frá Detoxinista. Ég breytti uppskriftinni lítilega en það var sem sagt ekki ég sem fann upp þessa snilld – að nota svartar baunir til að búa til brúnkökur (e. brownies).

Stóri kosturinn er að maður er enga stund að búa til þessar brúnkökur. Ókosturinn er aftur á móti að þær eru fljótar að hverfa ofan í maga. Ég er til dæmis búin að vera í margar vikur á leiðinni að setja þessa uppskrift hér inn en hef einfaldlega ekki náð að taka mynd af kökunum áður en þær gufa upp 🙂

Hráefni:

  • ¼ bolli glútenlaust haframjöl
  • 1 dós svartar baunir
  • 1 bolli kókospálmasykur
  • ¼ bolli mjúkt möndlusmjör*
  • 6 msk hrátt kakó (eða bara lífrænt, ósykrað)
  • 2 msk möluð hörfræ*
  • 2 tsk eplaedik*
  • ½ tsk lífrænt vanilluduft
  • ½ tsk vínsteinslyftiduft
  • ¼ tsk sjávarsalt
  • 1 plata dökkt súkkulaði

* Ég nota möndlusmjör frá Rapunzel (fæst t.d. í Nettó). Það er alveg einstaklega mjúkt og gott.

* Ég set alltaf slatta af hörfræjum í blandara og mala niður í fínt mjöl. Geymi svo í lokuðu íláti inn í ísskáp og nota í alls konar. Möluðu hörfræin virka eins og egg – „líma“ hráefnið saman.

* Ég veit að eplaedik hljómar kannski ekki vel en ég lofa ykkur því að þið finnið ekkert bragð af því. Eplaedkið hjálpar brúnkökunum að lyftast svo alls ekki sleppa því.

Aðferð:

  1. Stillið bakaraofninn á 180° með blæstri.

  2. Setjið haframjölið í matvinnsluvél og malið það í smá stund til að það verði fíngerðara.

  3. Hellið svörtu baunum úr dósinni í sigti (og yfir vask) og skolið vel með vatni.

  4. Setjið baunirnar í matvinnsluvélina ásamt restina af hráefninu (nema súkkulaðinu). Blandið vel.

  5. Brjótið súkkulaðið í bita og setjið í matvinnsluvélina. Notið „pulse“ takkann í nokkur skipti (eða setjið hana bara í gang á venjulega hátt í smá stund). Aðal málið er að blanda súkkulaðinu saman við deigið en samt þannig að það haldist í bitum.

  6. Setjið bökunarpappír í kassalaga form sem er sirka 20×14 cm að stærð (ekki heilög stærð en gott viðmið).

  7. Setjið deigið í formið og sléttið úr því með sleikju (eða öðru áhaldi).

  8. Setjið formið inn í ofn og bakið í 30 mín.

  9. Leyfið kökunum að kólna aðeins áður en þið skerið þær í bita. Þær eru þó lang bestar þegar þær eru enn heitar.

Njótið!

sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinGuðrún gefur kost á sér í 1. sætið
Næsta greinStórbætt lýsing við leikskólann Óskaland