FAGURGERÐI – MATUR // Þessi ljúffenga ískaka er alveg ekta til að borða í sumarsólinni með góðum vinum.
Svo er hún er líka svo falleg að það er alveg extra gaman að framreiða hana 🙂
Ekki láta langa innihalds/aðferðarlýsingu hræða ykkur – það er í alvörunni mjög lítið mál að búa til þessa ísköku.
Botninn:
- 1 bolli pekanhnetur
- ½ bolli valhnetur
- 1 ½ bolli döðlur
- Smá sjávarsalt
Aðferð:
- Setjið hneturnar í matvinnsluvél og kurlið smátt niður. Setjið í skál og leggið til hliðar.
- Setjið döðlurnar í matvinnsluvél og maukið þannig að úr verði döðlumauk. Setjið döðlurnar og sjávarsaltið í skálina með hnetunum.
- Blandið öllu vel saman. Mér finnst best að nota hendurnar og hnoða döðlunum og hnetunum saman þannig. En þið getið líka notað sleikju.
- Setjið bökunarpappír í ílangt kassalaga form (eða bara það form sem ykkar hentar).
- Setjið deigið í formið og pressið vel niður með höndunum.
- Setjið formið inn í frysti á meðan þið búið til karamelluna og fyllinguna.
Karamellan:
- 2 kúffullar msk af möndlusmjöri (ég notaði dökkt möndlusmjör)
- 3 msk hlynsíróp
- 2 msk kókosolía
- ½ tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
- Örlítið sjávarsalt
Aðferð:
- Setjið allt saman í skál og bræðið í vatnsbaði. Þið getið líka sett beint í pott og brætt saman þannig en passið ykkur að karamellan brenni ekki við.
- Leggið karamelluna til hliðar og leyfið henni að kólna.
Fyllingin:
- 2 bollar kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt)
- ½ bolli kókosmjólk („full fat“)
- 2 msk hlynsíróp (eða meira ef þið viljið hafa fyllinguna sætari)
- 3 msk kókosolía
- 2 msk sítrónusafi (úr ferskri sítrónu)
- 1 tsk lífræn vanilla (duft en ekki dropar)
- Örlítið sjávarsalt
Aðferð:
- Setjið allt í blandara og blandið vel saman.
- Takið formið úr frystinum og hellið fyllingunni yfir. Sléttið vel úr með sleikju.
- Náið í skálina með karamellunni og notið matskeið til að láta hana leka yfir fyllinguna. Hrærið karamellunni lauslega saman við fyllinguna, fram og til baka með skeiðinni. Karamellan á ekki að blandast fyllingunni fullkomlega, heldur aðallega bara á yfirborðinu.
- Setjið formið aftur inn í frysti og leyfið því að vera þar í nokkrar klukkustundir.
Súkkulaði:
- ½ plata af dökku súkkulaði (ég notaði 85% súkkulaði)
- 1 tsk kókosolía
Aðferð:
- Bræðið súkkulaði í vatnsbaði ásamt kókosolíunni. Þið getið líka brætt það í potti en eins og með karamelluna þá verðið þið að passa vel að það brenni ekki við.
- Takið formið úr frystinum og notið skeið til að láta súkkulaðið leka yfir ískökuna.
- Setjið formið aftur inn í frysti. Best er að geyma ískökuna í frysti yfir nótt þannig að hún verði örugglega þétt í gegn. Kakan þarf svo að fá að standa í sirka 30 mín á borðinu áður en hún er skorin.
Njótið!