Vegan-pekan hafrakökur

FAGURGERÐI – MATUR // Þessar smákökur eru bæði hollar og góðar.

Þessar smákökur eru heldur ekkert venjulega góðar. Einhver gæti átt erfitt með að trúa því að þær séu í alvörunni hollar, en trúið mér, þær eru það svo sannarlega.

Sætan sem ég nota í uppskriftina er kókospálmasykur en hann hefur mjög lágan sykurstuðul. Það þýðir að hann veldur ekki sveiflum á blóðsykrinum.

Haframjölið og hneturnar eru sérlega trefjaríkar og stuðla þannig að góðri meltingu. Og þegar meltingin er góð þá er heilsan oftast góð líka.

Hráefni

  • 2 bollar haframjöl (ég notaði glútenlaust frá Amisa)
  • ½ bolli kókosolía, við stofuhita
  • 2 „chia egg“*
  • ¼ bolli jurtamjólk (ég notaði hrísmjólk í þetta skipti en möndlu- eða kókosmjólk er líka mjög góð)
  • ½ bolli kókospálmasykur
  • Smá sjávarsalt
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 bolli kókosmjöl
  • 1 msk kókoshveiti
  • Tæpur 1 bolli pekanhnetur

+ 1 plata af súkkulaði, brætt í vatnsbaði ásamt 1 tsk af kókosolíu

*1 chia egg = 1 msk af möluðum chiafræjum + 3 msk af vatni og blanda vel saman.

Aðferð:

  1. Stillið bakaraofninn á 180° með blæstri og setjið bökunarpappír á ofnplötu. Ef þið raðið vel þá á deigið að komast fyrir á einni plötu.
  2. Setjið haframjölið í blandarann og blandið þannig að það verði að fíngerðu mjöli. Athugið að það tekur enga stund svo ekki fara langt frá blandaranum. Setjið haframjölið í stóra skál.
  3. Hellið kókosolíunni í skálina og blandið vel saman.
  4. Setjið chia eggin og jurtamjólkina saman við skálina og blandið vel saman.
  5. Setjið því næst kókospálmasykurinn, sjávarsaltið, vínsteinslyftiduftið, kókosmjölið og kókoshveitið í skálina og blandið vel.
  6. Saxið pekanhneturnar niður og setjið í skálina. Blandið öllu vel saman. Gott er að nota handþeytara svo að allt blandist örugglega vel saman. Að sjálfsögðu má líka nota hrærivél.
  7. Notið teskeið til að móta litlar kúlur úr deiginu. Fletjið kúlurnar í lófunum ykkar þannig að þær verða flatar. Þið getið líka stillt öllum kúlunum upp á ofnplötuna og flatt þær svo út, annað hvort með flötum lófa eða glasbotni.
  8. Setjið plötuna inn í ofn og bakið í 10 mínútur eða þar til smákökurnar byrja að brúnast.
  9. Kælið smákökurnar og pennslið þær með súkkulaði.
  10. Geymið smákökurnar á köldum stað.

Njótið!

ATH. #1 Til að mala chiafræin er best að skella þeim í blandarann í skamma stund. Passið að hafa þau ekki of lengi í blandaranum – þá er hætta á að þau verði olíukennd. Einnig er hægt að kaupa tilbúin möluð chiafræ en ég mæli frekar með hinu enda sáraeinfalt.

ATH. #2 „Chia eggin“ virka eins og hænuegg í uppskriftinni – sjá um að líma hráefnið allt saman. Þannig að alls ekki sleppa þeim.

ATH. #3 Ég notaði 85% súkkulaði til að pensla kökurnar með. Þið ráðið hversu dökkt eða ljóst súkkulaði þið notið en athugið að því ljósara sem súkkulaðið er, því meiri sykur er í því. Ef þið eruð ekki mikið fyrir dökkt súkkulaði en viljið ekki súkkulaði með mjólk, þá getið þið t.d. notað vegan súkkulaðið frá Ichoc sem er bæði ljóst og mjólkurlaust.

Fyrri greinRakel sýnir í Listagjánni
Næsta greinMan­sals­málið í Vík fellt niður