Verðlaun fyrir fegurstu garða Hveragerðisbæjar árið 2010 voru afhent á hátíðinni Blóm í bæ um helgina.
Þrír garðar voru verðlaunaðir og verða þeir til sýnis á laugardag milli kl. 13 og 16. Allir áhugamenn um gróður og garða eru hvattir til að nota þetta tækifæri og skoða garðana sem hlutu viðurkenningu þetta árið.
Verðlaunagarðarnir og eigendur þeirra eru þessir, ásamt umsögn dómnefndar:
Hraunbær 22. Eigendur Sólborg Ósk Valgeirsdóttir og Sigurður Gísli Gíslason.
Innkeyrslan er hellulögð með upphækkuðum beðum beggja vegna. Í garðinum er fjölbreytt úrval plantna. Þar er gróðurhús og leiktæki fyrir börn. Athygli vakti fallegt náttúrugrjót sem er raðað eftir norður hlið húsins. Garðurinn ber þess glöggt merki að eigendur hafa mikinn áhuga á garðrækt og er okkur hinum góð fyrirmynd.
Lyngheiði 26. Eigendur Guðríður Karen Bergkvistsdóttir og Jón B. Guðmundsson.
Hér er um gróskumikinn eldri garð að ræða. Mikill gróður og fjölbreyttur sem klipptur hefur verið til og snyrtur. Ný hellulögn liggur inn í bakgarðinn. Garðurinn ber þess vitni að þar hefur verið nostrað við hvert smáatriði.
Þórsmörk 5. Eigendur Ragnheiður Sigurðardóttir og Finnur Jóhannsson.
Aðkoman að húsinu er fallega hellulögð. Garðurinn er frekar lítill en snyrtimennskan er í fyrirrúmi. Einfaldur og stílhreinn í senn, gott dæmi um fallegan garð við nýlegt hús.