Sýslumaðurinn á Suðurlandi hefur hafnað beiðni Evu Daggar Þorsteinsdóttur í Garðakoti í Mýrdalshreppi um friðlýsingu æðarvarps í Dyrhólaey. Ákvörðunin er byggð á mótmælum Mýrdalshrepps og annarra landeigenda eyjunnar.
„Ég hef á undanförnum árum annast æðarvarpið í Dyrhólaey ásamt öðrum íbúum í Dyrhólahverfi sem nytja varpið. Æðarvarpið í Dyrhólaey er mjög merkilegt að því leiti að æðarfugl verpir meðfram allri strandlengju Íslands að sendinni strönd Suðurlands undanskilinni. Því er æðarvarpið í Dyrhólaey sérstætt fyrir Suðurland, því það er eina nytjaða varpið á landsvæðinu, allt frá Þjórsárósum í vestri til Suðursveitar í austri, segir Eva Dögg, spurð út í málið. Um þetta geti hlunnindaráðgjafar Bændasamtaka Íslands til margra áratuga vitnað best um að hennar sögn.
Stór hluti ferðamanna sem kemur í Mýrdalinn fer í Dyrhólaey. Eva Dögg segir það ekki hvað síst til að skoða fuglalífið. Hún segist ekki viss hvort hún haldi áfram lengra með málið eða uni úrskurði sýslumanns.
„Það eru uppi mörg sjónarmið um verndun, skipulag og nýtingu Dyrhólaeyjar. Varðandi höfnun sýslumanns á friðlýsingu æðarvarps í Dyrhólaey, er það eitt að segja, að á þessu stigi væri það mesti ávinningur svæðisins og allra þeirra aðila sem hlut eiga að máli í Dyrhólaey, að þeir komist að samkomulagi um skipulag og ráðstöfun landsins,“ segir hún.