Selfyssingurinn Ægir Már Þórisson hefur tekið við starfi forstjóra Advania á Íslandi, stærsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins.
Advania veitir opinberum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum víðtæka upplýsingatækniþjónustu og starfa um eitt þúsund manns hjá fyrirtækinu, þar af tæplega sex hundruð á Íslandi.
Ægir Már hóf störf hjá Advania árið 2011 og hefur undanfarin tvö ár verið framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðsmála. Hann er vinnusálfræðingur að mennt og var ráðgjafi, mannauðsstjóri og framkvæmdastjóri hjá Capacent áður en hann kom til starfa hjá Advania.
„Það eru spennandi tímar framundan hjá Advania á Íslandi og mikil tækifæri sem blasa við. Með þessari breytingu ætlum við að skerpa áherslur okkar á innanlandsmarkaði. Okkar meginmarkmið mun sem fyrr snúast um að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu á sviði upplýsingatækni og hjálpa þeim að nýta upplýsingatæknina á snjallan hátt til að ná enn betri árangri,“ segir Ægir Már í tilkynningu frá fyrirtækinu.