Ætla að ganga 200 kílómetra áheitagöngu

Í október verður opnuð göngudeild lyflækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Þar verður sinnt flókinni lyfjagjöf, blóðgjöfum og annarri meðferð vegna krabbameina, gigtsjúkdóma og annarra erfiðra lyflæknisvandamála.

Þá er fyrirhugað að þar fari fram blóðskilun vegna langvinnrar nýrnabilunar og er þegar áformað að koma fyrir á göngudeildinni tveimur blóðskiljum. Blóðskilunin og krabbameinsmeðferðin fer fram í náinni samvinnu við sérfræðinga frá Landsspítala.

Til að auglýsa göngudeildina og afla fjár til tækjavæðingar hefur verið ákveðið að efna til áheitagöngu sem Björn Magnússon, læknir, og tengdasonur hans, Hálfdán Steinþórsson, standa fyrir síðustu vikuna í ágúst. Þeir ætla að ganga um 200 kílómetra leið, eða frá Nýjadal, Bárðargötuna og þaðan niður með Langasjó, síðan yfir í Landmannalaugar og eftir það Laugaveginn í Þórsmörk.

Starfsmenn HSu ætla að gera sér glaðan dag í tilefni tíu ára sameiningarafmælis stofnunarinnar og fara í dagsferð í Þórsmörk, daginn sem þeir félagar áætla að enda gönguna eða laugardaginn 30. ágúst.

Án efa verður tekið þar vel á móti þeim og þeim fagnað við göngulokin og vonandi sjá einhverjir af starfsmönnum HSu sér fært að ganga með þeim síðasta spölinn og mæta með þeim í Þórsmörk.

Kálfurinn „Hvíti Gautur“ verður táknmynd áheitagöngunnar en Guðbjörg Jónsdóttir ekkja Gauta Gunnarssonar bónda á Læk í Flóahreppi gaf hann til minningar um mann sinn og til styrktar aðstöðunni á fyrirhugaðri göngudeild.

Fyrri greinÆgir náði ekki að koma inn marki
Næsta greinBáðar sveitir GOS fóru upp um deild