Ætla að kaupa Úlfljótsvatn

Skógræktarfélag Íslands og skátahreyfingin hyggjast kaupa land Orkuveitunnar við Úlfljótsvatn fyrir 200 milljónir króna.

Orkuveitan og borgarráð Reykjavíkur hafa þegar samþykkt tilboðið. Formaður Skógræktarfélagsins segir að þar eigi að rækta skóg sem verður opinn almenningi.

Skógræktarfélagið hafði áður gert tilboð í land Orkuveitunnar við Hvammsvík, en ekki var gengið að því. Þá sneri félagið sér að Úlfljótsvatni með fulltingi Bandalags íslenskra skáta. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, segir að með því að eignast landið tryggi skátarnir aðstöðu þar um aldur og ævi.

Skógræktin komi inn í kaup á jörðinni að hálfu og hyggist gera jörðina enn aðgengilegri fyrir þá sem þangað vilji koma. Það sé raunverulega hlutverk skógræktarinnar.

Landsvæðið er 1.500 hektarar og er kaupverðið tvö hundruð milljónir króna. Magnús tekur þó fram að kaupin séu ekki endanlega frágengin. Meðal annars eigi Orkuveitan og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar sumarbústaði á landinu sem þurfi að semja um en ekki standi til að hrófla við þeim. Aðalatriðið hjá Skógrækarfélaginu sé hins vegar að tryggja land undir skógrækt.

Það hafi gerst á undanförnum árum að land í nágrenni Reykjavíkur hafi verið tekið til annarra nota en skógræktar. Þetta sé hluti að því að tryggja svæði þar sem hægt sé í senn að rækta skóg og gefa almenningi kost á að njóta útiveru í lundum fagurs skógar.

Ríkisútvarpið greindi frá þessu

Fyrri greinNýttu sér lagaheimild eftir að útboð mistókst
Næsta greinLýsa vanþóknun á vinnubrögðunum