Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands keppir í kvöld í 8-liða úrslitum Gettu betur gegn liði Menntaskólans á Akureyri.
Lið FSu skipa þau Vilborg María Ísleifsdóttir, Jakob Burgel og Ísak Þór Björgvinsson.
Fimm ár eru síðan lið FSu komst síðast í 8-liða úrslitin og því er spenna í skólanum og mikil stemmning fyrir kvöldinu hjá 70 manna klappliði sem verður í sjónvarpssal. Liðsmenn FSu eru þó „sultuslakir“.
„Við tókum saman brunch í dag til þess að samstilla okkur og róa taugarnar. Nú er stefnan tekin til Reykjavíkur til þess að gera einhvern óskunda,“ sagði Jakob léttur í bragði í samtali við sunnlenska.is.
„Við höfum verið að fara yfir almennar staðreyndir og dýpkað viskubrunninn. Kvöldið leggst mjög vel í okkur og við erum sultuslök. Stefnan er að koma með Hljóðnemann aftur heim niður Kambana,“ sagði Jakob ennfremur.
FSu hefur unnið keppnina einu sinni, en það var fyrsta keppnin sem haldin var, árið 1986.
Keppnin er í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu og hefst kl. 20:15. Fyrir áhugasama þá verður keppnin sýnd á stóra tjaldinu í Pakkhúsinu á Selfossi og opnar húsið kl. 20:00.