Samsteypan ehf, sem rekur farfuglaheimilið Bed and breakfast á Selfossi, ætlar að opna íbúðahótel með sex íbúðum að Austurvegi 36 á Selfossi næsta vor.
Húsið var áður í eigu Sveitarfélagsins Árborgar og hýsti leikskólann Ásheima og síðar Smiðjuna. Bæjarráð Árborgar ákvað á fundi sínum í síðustu viku að selja húsið til Samsteypunnar ehf. Kaupverðið er um 30 milljónir króna, en alls bárust tvö tilboð í húsið.
Valdimar Árnason hjá Samsteypunni ehf. segir að húsið og lóðin sem henni fylgir verði tekin í gegn og húsinu breytt í íbúðahótel. Það verður málað að innan og utan, skipt um gólfefni og innréttingar svo eitthvað sé nefnt. Framkvæmdir við þessar breytingar munu hefjst fljótlega.
Íbúðahótel eins og það sem mun rísa þarna eru vinsæl í Reykjavík, en Valdimar segir að ekkert slíkt sé í boði á Selfossi.
Sem fyrr segir er stefnt að því að sex íbúðir verði í húsinu, hver þeirra með sér eldhúsi og baðherbergi.
Hann útilokar ekki að einhverjar fleiri framkvæmdir verði á lóðinni í framtíðinni. Hún sé á miðbæjarskipulagi og mögulega sé hægt að byggja eitthvað á lóðinni á bakvið húsið. Verði það gert í sátt og samlyndi við íbúa í nágrenninu.