Íbúðalánasjóður stefnir að því að selja allar íbúðir sem sjóðurinn á í Árborg á þessu ári. Áttatíu íbúðir í eigu sjóðsins standa auðar í Árborg.
Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, mætti á fund bæjarráðs Árborgar í gær ásamt starfsmönnum eignasviðs sjóðsins. Á fundinum lýstu fulltrúar sveitarfélagsins áhyggjum sínum af því að ekki hafi tekist að selja íbúðir sjóðsins en forsvarsmenn sjóðsins svöruðu því til að stefnt væri að því að selja allar íbúðir í Árborg á árinu.
Mikill skortur er á leiguhúsnæði í Árborg á meðan áttatíu íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs standa auðar. Bæjarráð Árborgar hefur ítrekað beint þeim tilmælum til Íbúðalánasjóðs á undanförnum misserum að koma íbúðunum í útleigu eða sölu.