Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur verið kynnt greinagerð frá Þjóðminjasafninu og bókun stjórnar Byggðasafns Árnesinga, vegna Minjasafns Emils Ásgeirssonar í Gröf.
Að sögn Ragnars Magnússonar oddvita er það mat Þjóðminjasafnsins að æskilegt sé að safnið falli undir starfsemi Byggðasafns Árnesinga. Ragnar sagði að framtíð safnsins væri nú komið í ákveðið ferli en mikill vilji væri fyrir því frá öllum aðilum að húsnæðismál safnsins yrðu leyst til frambúðar.
„Það er vilji til þess að finna safninu hentugt húsnæði á Flúðum með góðri sýningaraðstöðu,” sagði Ragnar. Hann tók fram að málið yrði leyst í samstarfi við ættingja Emils sem hafa haft veg og vanda af safninu til þessa. Stofnandi safnsins Emil Ásgeirsson, bóndi að Gröf, hóf söfnun og varðveislu gripa um miðja síðustu öld. Emil var fæddur 31. mars 1907 en lést í desember 1988. Síðan hafa afkomendur hans unnið að varðveislu og viðgangi safnsins og er það talsvert að umfangi í dag en hefur liðið fyrir ófullnægjandi húsnæði og fjárskort.