Hin árlega hátíð Grímsævintýri verður haldin á Borg í Grímsnesi næstkomandi laugardaginn, þann 8. ágúst. Að vanda verður fjölbreytt og skemmtileg dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Tombólan góða verður á sínum stað í félagsheimilinu, handverks- og matarmarkaður verður í íþróttahúsinu, Sprengju-Kata mætir á svæðið og sýnir listir sínar. Hjálparsveitin Tintron sýnir tækin sín og tól, skátarnir á Úlfljótsvatni verða með útieldhús þar sem hægt verður að poppa popp og baka hike brauð yfir opnum eld. Opnun myndlistasýningar barna úr öllum skólastigum Kerhólaskóla, hoppukastalar, hestaleiga fyrir börn, blöðrur, andlitsmáling og margt fleira skemmtilegt.
Frítt er í sund, tilboð á ís í Verzluninni á Borg og kaffihlaðborð verður á Gömlu Borg svo að eitthvað sé nefnt. Tjaldstæði er á staðnum.
Aðgangur að hátíðinni er ókeypis.
Kvenfélag Grímsneshrepps stendur fyrir Grímsævintýrum en aðal styrktaraðili hátíðarinnar er Grímsnes- og Grafningshreppur.
Tombóla kvenfélagsins hefur verið haldin árlega frá árinu 1926 en allur ágóði af henni rennur til góðgerðar- og líknarmála innanlands. Fjölbreyttir og skemmtilegir vinningar að vanda og engin núll.