Búið er að koma upp fallegum veitingagarði við Hótel Flúðir og var hann formlega tekinn í notkun í síðustu viku.
Ráðist var í verkið fyrir um þremur mánuðum síðan en nánast allt efnið í hann er tekið úr námum í Hrunamannahreppi, holtagrjót og grjótflísar úr námu í landi Þórarinsstaða og stuðlaberg frá Hrepphólum.
Björgvin Snæbjörnsson hannaði garðinn en það var fyrirtækið Fögrusteinar ehf í Hrunamannahreppi sem sá um flutning á efninu og gerð garðsins en mikil vinna felst í því að koma stórgrýtinu fyrir. Önnur almenn vinna var einnig í höndum heimamanna.
Í garðinum er gríðarstór timburpallur þar sem koma má um 150 gestum fyrir í veislur eða almennar veitingar. Þá er búið að koma fyrir tveimur heitum pottum sem gestir hótelsins hafa aðgang að en hægt er að ganga út í garðinn úr helmingi allra herbergjanna sem eru 32 talsins.