Salernisbygging í Dyrhólaey, sem komið var upp í mars síðastliðnum, stendur auð. Upphaflega var ráðgert að húsið yrði tekið í notkun síðasta sumar en uppsetningin tafðist nokkuð.
Nú er húsið hins vegar komin á sinn stað en allt harðlæst.
mbl.is greinir frá þessu.
Verið er að færa bílaplanið á svæðinu að nýja salerninu en framkvæmdin hefur verið sett á ís vegna fuglavarps og verður fram haldið síðla sumars að varpi loknu. „Það er eins og andskotinn hafi gengið frá þessu,“ segir Bryndís Fanney Harðardóttir, formaður skipulagsnefndar Mýrdalshrepps, í samtali við mbl.is. „Það hefur ekkert gerst í einn og hálfan mánuð.“
Dyrhólaey er friðland og málefni hennar á könnu Umhverfisstofnunar. Þar fengust þau svör að ekki væri hægt að opna salernin því enginn fyndist til að hafa umsjón með þeim. Þá á einnig eftir að ganga frá pípulögnum á svæðinu.