Þakkar Selfyssingum fyrir frábær viðbrögð

Vigfús Blær Ingason hefur síðustu vikur staðið fyrir söfnun fyrir leikskólabyggingu í þorpinu Masephumelele í Suður-Afríku. Vinahópur Vigfúsar gekk með honum í hús á Selfossi um síðustu helgi og safnaði í bauka.

„Ég er mjög heppinn með vini en þessum öðlingum fannst ekkert eðlilegra en að mæta á laugardagsmorgni til þess að labba í hús í brjáluðu roki og safna pening fyrir byggingu leikskóla í Suður-Afríku,“ sagði Vigfús í samtali við sunnlenska.is.

Hann fór síðan með peningadósirnar og dósaopnara í bankann á mánudag og upp úr baukunum komu samtals 136.383 krónur. Þar með er Vigfús búinn að safna yfir 800 þúsund krónum en hann setur markmiðið á eina milljón króna.

„Ég vil þakka kærlega fyrir frábær viðbrögð bæjarbúa um helgina og að sjálfsögðu öllum vinum mínum sem mættu til þess að safna. Þetta var frábær dagur í alla staði,“ sagði Vigfús ennfremur.

Leikskólinn sem Vigfús er að safna fyrir brann til grunna í maímánuði en Vigfús vann á skólanum síðasta vetur.

Hægt er að fræðast nánar um söfnunina á heimasíðu Vigfúsar en fólk getur lagt fram fjárhagsaðstoð með því að leggja inn á banka 322-13-110459 undir kennitölunni 211194-2009.


Vinir Fúsa settu sig í stellingar á laugardaginn og gengu hús úr húsi á Selfossi.

Fyrri greinFrakki villtist á Heklu
Næsta greinHesthús stórskemmt eftir bruna