Næstkomandi laugardag verður perlað með Krafti í Midgard Adventure á Hvolsvelli. Kraftur, sem er félag ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra, hefur undanfarið ár verið að perla og selja armbönd með áletruninni „Lífið er núna“ til styrktar félaginu.
„Það kom til þannig að haft var samband við okkur fyrir hönd nokkurra kvenna á Hvolsvelli, sem hittast reglulega og vildu leggja góðu málefni liði með vinnu sinni. Við hjá Krafti höfum farið nokkrum sinnum út á land með perlurnar okkar og heimamenn skipulagt svona perludag. Við tökum alltaf svona beiðnum fagnandi og erum afskaplega þakklát fyrir hvern sjálfboðaliða sem leggur okkur lið við þetta verkefni,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir, verkefnastjóri hjá Krafti, í samtali við sunnlenska.is.
Elstu á tíræðisaldri
Ragnheiður segir að allir geti perlað. „Yngstu sjálfboðaliðarnir hafa verið þriggja ára og þeir elstu á tíræðisaldri. Það koma alltaf nokkrir félagar í Krafti og leiðbeina fólki við perlunina og stundum koma heilu fjölskyldurnar saman – allt frá litlum börnum upp í ömmur og afa.“
Að sögn Ragnheiðar eru perludagarnir hjá þeim orðnir nokkuð margir. „Þetta byrjaði allt í janúar á þessu ári þegar við boðuðum til opins húss á KEX hostel þar sem yfir tvö hundruð manns mættu. Síðan hafa hin ýmsu fyrirtæki haft samband og boðið okkur vinnu starfsfólks síns auk þess sem skólar og frístundaheimili hafa perlað fyrir okkur.“
Mikil þörf á fjármagninu
Armböndin sem sjálfboðaliðar hafa perlað frá upphafi eru orðin hátt í sjö þúsund. „Það er einmitt það fallega við þetta að það skuli vera sjálfboðaliðar sem vinna þessa vinnu. Þannig getur fólk lagt okkur lið með vinnuframlagi sínu og það er okkur afar mikilvægt,“ segir Ragnheiður.
Allur ágóðinn fer í starfsemi Krafts. „Við höldum meðal annars úti neyðarsjóði sem styrkir ungt fólk með krabbamein til að standa straum af læknisverkum og lyfjakostnaði. Við rekum auk þess stuðningsnet þar sem jafningjar fræða jafningja, höldum úti endurhæfingar- og útivistarhópi fyrir krabbameinsgreinda og bjóðum uppá endurgjaldslausa sálfræðiþjónustu. Svo erum við líka með vikulega viðtalstíma á Landspítalanum. Það er því sannarlega þörf fyrir það fjármagn sem við fáum fyrir perluarmböndin,“ segir Ragnheiður að lokum.
Hægt er að nálgast armböndiin í vefverslun Krafts á heimasíðu félagsins www.kraftur.org og kostar hvert armband kr. 2.000. Þau eru til í fullorðins- og barnastærðum.
Nánar upplýsingar um perludaginn á Hvolsvelli má finna hér.