Nýverið var veitingastaðurinn Yellow opnaður við Austurveg 3 á Selfossi. Þar er lögð áhersla á holla rétti til að taka með eða til að borða á staðnum.
Eigendur staðarins eru Ásbjörn Jónsson, Fannar Geir Ólafsson, Magnús Már Haraldsson og Tómas Þóroddsson. Þeir reka einnig veitingastaðina Kaffi Krús og Tryggvaskála á Selfossi en þeir hafa notið mikilla vinsælda hjá heimafólki sem og ferðalöngum.
Tómas segir í samtali við Sunnlenska að hann hafi fundið fyrir eftirspurn eftir fljótafgreiddum hollum mat á svæðinu og þegar hentugt húsnæði fannst þá hafi þeir ákveðið að kýla á að opna slíkan stað.
„Við erum í grunninn með ferskan og hollan mat. Einnig er hægt að setjast niður hjá okkur og fá sér kaffbolla og hafrakladda. Já, eða laktósafrían ís eða jafnvel djúsí ís með nýsteiktum kleinuhring. Þannig að þetta er ekki bara grænt og hollt. En við leggjum mikið upp úr fersku hráefni,“ segir Tómas.
Yellow hefur fengið góðar viðtökur eftir að staðurinn opnaði. „Við erum mjög bjartsýnir en erum um leið mjög þakklátir fyrir viðtökurnar sem staðurinn hefur fengið hingað til,“ segir Tómas.
En hverjir eru það sem sækja svona heilsustað? Tómas segir að markhópurinn sé Selfyssingar og gestir þeirra. „Þetta verður örugglega vinsæll hádegisverðarstaður fyrir Selfyssinga og þá sem eiga leið í gegnum bæinn.“