Mjög hvasst hefur verið í Mýrdalnum í morgun og fór vindhraði í hviðum upp í rúma 43 metra á sekúndu við Reynisfjall.
Björgunarsveitin Víkverji í Vík hefur verið kölluð út en þakplötur hafa fokið af húsum í sveitinni.
Björgunarsveitarmenn eru nú að aðstoða heimilisfólk í Vestra-Skarðnesi þar sem þakplötur eru að fjúka. Þá fauk hluti af þaki útihúss í Fagradal í morgun og aðstoðuðu nágrannar bóndann þar við að festa það sem eftir var af þakinu.
Meðalvindhraði er nú 26,7 metrar á Mýrdalssandi, samkvæmt vef Veðurstofunnar og 26,5 metrar á Reynisfjalli.