Útköllum björgunarsveita hefur fjölgað eftir því sem liðið hefur á daginn og veðrið færst í aukana. Björgunarsveitir hafa meðal annars verið kallaðar út vegna foks á þakplötum á Laugarvatni, í Hveragerði, Mýrdal og undir Eyjafjöllum.
Fastir bílar hafa meðal annars verið sóttir á Kaldadal og Kjalveg.
Veðurstofan gerir ráð fyrir norðvestan 18-25 m/s í kvöld, hvassast undir Eyjafjöllum. Þurrt að mestu sunnanlands en víða sandfok og snarpar vindhviður við fjöll. Dregur heldur úr vindi á morgun.