Um hvítasunnuhelgina opnaði nýtt kaffihús í lista- og menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri sem hlotið hefur nafnið Café Art. Það er Júlía Malou Björnsdóttir sem sér um rekstur kaffihússins auk þess að sjá um rekstur gistiheimilisins Art Hostel sem staðsett er í sama húsi.
Júlía segir að það hafi alltaf verið draumur að reka sitt eigið kaffihús. „Ég hafði gælt við þá hugmynd að opna lítið kaffihús í garðinum núna í sumar vegna þess að það stoppa svo margar rútur með túrista rétt við húsið mitt. Það gekk kannski ekki alveg upp svona út frá heilbrigðissjónarmiðum. Svo sá ég auglýsingu um að það vantaði einhvern til að sjá um gistiheimilið þannig sem ég ákvað að stökkva á. Þannig gat ég látið drauminn um kaffihúsið rætast,“ segi Júlía sem sér einnig um allan daglegan rekstur gistiheimilisins.
Að sögn Júlíu hafa viðtökurnar verið með ágætum. „Síðan við opnuðum hefur verið ágætt að gera um helgar en minna á virkum dögum. Ég held að fólk átti sig ekki á að það er opið hérna líka á virkum dögum.“
Júlía segist ekki bjóða upp á eiginlegan kökuseðil heldur spili hún þetta svolítið eftir eyranu. „Ég er svolítið að leika mér bara. Þannig þetta er nokkurs konar tilraunaeldhús hjá mér en ég passa mig þó á því að smakka allt áður en ég ber það fram,“ segir Júlía og hlær. Og heldur svo áfram. „Ég er með ákveðna grunnuppskrift en set svo mismunandi fyllingar og krem og skreyti kannski kökurnar með blómum úr sykurmassa.“
Auk þess að bjóða upp á kökur sem finna má á vel flestum kaffihúsum leggur Júlía mikið upp úr bollakökum. Og hún leggur mikla áherslu á að bollakaka sé miklu meira en möffins. „Það er hægt að skreyta bollakökurnar á svo marga vegu og svo þarf ekkert alltaf að vera með það sama í uppskriftinni,“ segir Júlía sem vill ekki gefa mikið upp um hvað hún notar í sínar uppskriftir. „Ég vil að það komi pínulítið á óvart þannig að kaffihúsaferðin verði að pínu upplifun. Þú kemur og pantar þér köku og heldur að þú sért að fá þér venjulega súkkulaðiköku. En svo þegar þú smakkar hana kemur í ljós að það er eitthvað allt annað bragð af henni. Ég þarf að hafa einhverja sérstöðu svo að fólk muni eftir mér og komi aftur,“ segir Júlía á lokum.
UPPFÆRT KL. 9:28