Að sögn Valtýs Valtýssonar, sveitarstjóra Bláskógabyggðar, var ekki haft samband við sveitastjórn við nýja úttekt Umhverfisstofnunar á ástandi vinsælla ferðamannastaða.
Í Bláskógabyggð eru þrír staðir sem þurfa sérstakrar skoðunar en þar eru tveir vinsælustu ferðamannastaðir landsins, Gullfoss og Geysir. Auk þess eru Hveravellir nefndir til sögunnar.
Umhverfisstofnun hefur tekið saman að beiðni umhverfisráðuneytis lista yfir þau svæði sem að mati stofnunarinnar þurfa sérstakrar athygli við og að hlúa þurfi sérstaklega að.
Að sögn Valtýs hefur sveitarstjórn Bláskógabyggðar reynt að fylgjast með þeirri umræðu sem er um þessi mál enda ljóst að ef áætlanir um að ein milljón ferðamanna komi til Íslands gangi eftir verði ágangur í byggðinni gríðarlegur.
,,Við höfum reynt að koma að málum og finna lausnir á því hvernig hægt er að gera betur. Ef þessar áætlanir ganga eftir verður að búa svo um hnútana að hægt sé að taka við þessum fjölda. Það er engin lausn að friðlýsa ef ekki er hægt að fylgjast með því. Það þarf fjármagn til að hægt sé að tryggja að hægt sé að taka við öllum þessum gestum,“ sagði Valtýr.