„Þetta brennur af mikilli orku og ofsa“

Eldurinn sem kveiktur var í röralager Set á Selfossi í kvöld hefur verið slökktur. Gríðarlega mikill eldur var þar í plaströrum en slökkviliði tókst að varna því að eldurinn bærist í næsta hús í iðnaðarhverfinu.

„Þetta var eldur í mjög svo eitruðum efnum en miðað við þann eldsmat sem er hérna þá gekk slökkvistarfið algjörlega vonum framar.“

Þetta sagði Pétur Pétursson, aðstoðarslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is þegar slökkviliðsmenn voru að slökkva í síðustu glæðunum í Gagnheiðinni.

„Það má leiða að því líkum að þetta sé íkveikja því við höfum fengið fleiri svoleiðis tilfelli í dag. Það er auðvitað grafalvarlegt mál,“ sagði Pétur ennfremur.

Eldhafið var gríðarlegt og gekk eðli málsins samkvæmt tiltölulega hægt í upphafi en Pétur segir að með samstilltu átaki viðbragðsaðila hafi vinnan gengið vel.

„Það eru hér slökkviliðsmenn frá Selfossi, Hveragerði, Þorlákshöfn og Árnesi, einhversstaðar í kringum fimmtíu manns. En í aðgerðinni sjálfri myndi ég skjóta á að það séu langt yfir hundrað manns sem koma að þessu með sjúkraflutningamönnum, lögreglu og björgunarsveitum.“ Auk þess var kallað eftir mannskap, froðu og tækjum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en sú aðstoð var svo afturkölluð.

„Það er mikill hiti í þessu og þetta brennur af mikilli orku og ofsa þannig að geislunarvarminn er gríðarlegur. Þá höfðum við áhyggjur af nærliggjandi húsum. Vatn sem slökkviefni eitt og sér er ekki mjög effektíft á eld af þessu tagi, þannig að við erum líklega búnir að nota mestan hluta af froðubirgðunum okkar,“ sagði Pétur.

Þrátt fyrir að vinnu sé lokið á vettvangi er starfi slökkviliðsins ekki lokið.

„Nei, ég á ekki von á því að við verðum mjög lengi á vettvangi eftir að allt hefur verið slökkt. En síðan tekur við gríðarleg vinna í að ganga frá og hreinsa búnað slökkviliðsins,” sagði Pétur að lokum.

Fyrri greinGríðarlegur eldur á Selfossi
Næsta greinEinn fluttur á sjúkrahús vegna reykeitrunar