„Þetta er alger svívirða af hálfu Vegagerðarinnar,“ segir Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps um ákvörðun fyrirtækisins að breyta kostnaðarþátttöku sinni við lagningu slitlags á heimreiðar.
„Við fórum snemma í vor að ræða við Vegagerðina um aðkomu hennar að slíkri vinnu. Þá vorum við upplýstir um að reglur Vegagerðarinnar gerðu ráð fyrir að við greiddum slitlagið, en Vegagerðin byggði upp veginn og greiddi efra burðarlag undir klæðningu,“ segir Gunnar.
„Við ráðgerðum um sjö milljón ir á ári í þetta verkefni í þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og ákváðum að greiða 60% af kostnaði við slitlag en ábúendur myndu greiða 40%,“ segir hann. „Í sumar auglýstum við eftir áhugasömum aðilum og eftir mat á umsóknum sjö eða átta ábúenda var samþykkt að leggja slitlag heim að tveimur bæjum, Eyvík og Sólheimum, eftir mat á hagkvæmni framkvæmdanna.“
Í kjölfar þess að reglum Vegagerðarinnar var breytt fyrirvaralaust þannig að fyrirtækið greiðir aðeins 50% af efra burðarlagi undir klæðningu ákvað sveitarfélagið að taka á sig aukakostnaðinn við framkvæmdirnar að þessu sinni. „Það er annað hvort að breyta eigin reglum um þátttöku í kostnaði við lagningu slitlags í heimtraðir í framtíðinni, og borga til dæmis bara 40% í stað 60%, eða minnka þessar fram kvæmdir næsta ár,“ segir Gunnar að lokum.