Þann 18. júlí verður haldinn hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum en þann dag var samningum um fullveldi Íslands lokið með undirritun sambandslaganna sem tóku gildi 1. desember 1918.
Þingfundurinn er hugsaður eins og fundir á Þingvöllum hafa verið á hátíðar- og minningarstundum í sögu þjóðarinnar. Fundurinn verður undir berum himni á sérstaklega byggðum þingpalli. Þingfundurinn er fyrirframskipulagður þar sem ætlunin er að samþykkja ályktun sem full samstaða er um.
Stefnt er að því að hafa alla umgjörð þingfundarins þennan dag hóflega og látlausa enda ekki um að ræða þjóðhátíð í hefðbundnum skilningi. Bein sjónvarpsútsending verður frá þingfundinum og öllum landsmönnum gefst þannig kostur á að fylgjast með þótt allir séu að sjálfsögðu velkomnir á staðinn.
Þessi þingfundur er annar af tveimur hápunktum afmælisárs fullveldinsins en þann 1. desember næstkomandi verður fullveldisdagurinn haldinn hátíðlegur um allt land í samstarfi við háskóla, sveitarfélög og fólkið í landinu.