Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, minntist Eggerts Haukdals, fyrrverandi alþingismanns, á þingfundi í dag, en Eggert lést þann 2. mars sl., 83 ára að aldri.
„Eggert Haukdal fór nokkuð sínar eigin leiðir í stjórnmálum, var sjálfstæður í skoðunum og lét ógjarnan hlut sinn fyrir öðrum. Þessir þættir í fari hans, svo og öflug fyrirgreiðsla fyrir fólkið í kjördæminu, öfluðu honum trausts og vinsælda. Hann var sjálfur hlýr í viðmóti, gamansamur og þægilegur í umgengni. Hann var hæglátur maður og fór ekki um með hávaða eða málskrafi, var ræktarsamur við kjósendur og skyldurækinn við störf sín hér á Alþingi sem annars staðar þar sem hann lagði hönd að,“ sagði Einar meðal annars í minningarorðum sínum.
Eggert var alþingismaður Suðurlands fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1978 til 1995, utan árin 1979-1983 að hann náði kjöri sem utanflokkamaður, eftir átök um skipan D-listans í kjördæminu. Eggert sat á 19 þingum alls, en eftir það varð hann viðskila við sinn gamla flokk og var tvívegis í framboði fyrir önnur samtök.
Eftir að forseti hafði flutt minningarorðin minntust þingmenn Eggerts með því að rísa úr sætum.