Þingmenn funduðu með sveitarstjórnar-mönnum

Í gær funduðu nokkrir þingmenn Suðurkjördæmis með fulltrúum sveitarstjórnanna í Rangárvallasýslu í fundarsal Miðjunnar á Hellu.

Fundurinn var hluti af yfirferð þingmannanna í kjördæmaviku og stóð í um þrjár klukkustundir.

Sex sveitarstjórnarmenn úr Rangárþingi ytra, tveir úr Rangárþingi eystra og einn úr Ásahreppi funduðu með Björgvin G. Sigurðssyni, Eygló Harðardóttur, Unni Brá Konráðsdóttur, Atla Gíslasyni, Árna Johnsen og Sigurði Inga Jóhannssyni.

Eins og venja er kynntu sveitarfélögin sín áherslumál gagnvart ríkisvaldinu og lögðu línurnar um hvernig best væri að koma málum í framkvæmd. Meðal annars var fjallað um stækkun, viðbyggingu og rekstrarmál Hjúkrunarheimilisins Lundar, samgöngubætur með brú yfir Þverá og bundnu slitlagi á Landvegi, virkjana-, fjarskipta- og heilsugæslumál.

Þingmenn voru beðnir um að taka áherslur sveitarstjórnarmanna alvarlega og óskað var eftir tíðari samskiptum í framtíðinni um málefni samfélagsins.

Fyrri greinÞórsurum spáð fjórða sæti
Næsta greinSkráning í Uppsveitastjörnuna hafin