Fjölmennur íbúafundur var haldinn í félagsheimilinu á Kirkubæjarklaustri í gær. Þar var m.a. farið yfir fyrirhugað starf Þjónustumiðstöðvar almannavarna á Kirkjubæjarklaustri.
Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun, Veðurstofu Íslands og Umhverfisstofnun fóru yfir þróun eldgossins í Grímsvötnum, afleiðingar þess og stöðuna í dag. Auk þess voru fulltrúar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Viðlagatryggingar Íslands, Bjargráðasjóðs og lögreglustjóri umdæmisins á fundinum og svöruðu spurningum íbúa.
Þjónustumiðstöð almannavarna á Kirkjubæjarklaustri var opnuð í morgun í grunnskólanum. Þar verður viðvera fram yfir helgi, en síðan verður opnunartími frá 10 – 13. Þar verða veittar upplýsingar og aðstoðarbeiðnum íbúa sinnt. Í forsvari fyrir þjónustumiðstöðina eru Vagn Kristjánsson og Sveinbjörn Jónsson, sem báðir störfuðu við þjónustumiðstöð almannavarna í Heimalandi.
Tveir starfsmenn Rauða krossins munu starfa í þjónustumiðstöð almannavarna á Klaustri og veita aðstoð og ráðgjöf svo sem sálrænan stuðning.