Ný þjónustumiðstöð á að rísa á Hellu, með verslunum, veitingasölu, bensínsölu og fleira. Þar verður einnig móttaka fyrir gesti hótelsmáhýsa sem verða sunnan megin við bygginguna, sennilega um 30 til 40 talsins.
Það eru fjárfestar leiddir af Erlu Jóhannsdóttur sem koma að verkinu. Ætlunin er að í þjónustumiðstöðinni verði stórt svæði þar sem ætlað er að starfræktur verði bændamarkaður. Þar er vísað til þess að í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að starfsemi eigi að efla byggðina og bændasamfélagið í kring.
Hópurinn sem stendur að verkefninu er að láta framkvæma svokallaða fýsileikagreiningu, sem snýr að mestu að hvort reikna megi með hagnaði af því. Sveitarstjórn tók málið fyrir nýverið og úthlutaði hópnum plássinu undir húsið, sem er vestan við afleggjarann að Gaddstaðaflötum.
Eftir því sem næst verður komist eru áætlanir á þann veg að framkvæmdir hefjist á næsta ári, mögulega næsta vor að lokinni skipulagsvinnu. Þá verði hægt að hefja starfssemi í byggingunni að hluta til strax næsta haust.
Verið er að velta upp þeim möguleika að í húsnæðinu verði nokkrir básar eða lítil pláss fyrir margar verslanir. Þá er ekki frágengið hvaða olíufélag verður með aðstöðu þar, en fyrir er Olís með stöð á Hellu.