Ekki verður hægt að halda áfram dýpkun Landeyjahafnar fyrr en á fimmtudag vegna ölduhæðar. Ekki er vitað hvort hvassviðrið í gær hafi fyllt höfnina enn frekar af efni.
Á mbl.is er haft eftir Þórhildi Elínu Elínardóttur, upplýsingafulltrúa Siglingastofnunar, að ekki hafi verið hægt að mæla í höfninni þar sem ölduhæð sé enn of mikil fyrir dýpkunarskipin. Hún segir að það líti út fyrir að ekki verði hægt að halda áfram með dýpkun fyrr en á fimmtudag. Ekki sé vitað hve langur tími muni líða þar til höfnin kemst aftur í gagnið.
Í dag eru nákvæmlega fjórar vikur síðan Herjólfur sigldi síðast milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Þriðjudaginn 28. september sigldi skipið fyrri ferð sína til Landeyjahafnar en þá þótti ljóst að ekki væri lengur fært fyrir skipið inn í höfnina.
Síðan þá hafa Eyjamenn og gestir þeirra sigldi til Þorlákshafnar en í frétt Eyjafrétta segir að mörgum finnist þjónustan ekki í takti við siglingaleiðina. T.d. sé ekki hægt að panta koju nema við brottför og hafa margir sett það fyrir sig að sigla með skipinu meðan ástandið er þannig enda tekur siglingin til Þorlákshafnar tæpar þrjár klukkustundir. Í frétt Eyjafrétta er gefið í skyn að þolinmæði Eyjamanna sé að bresta.