Grímsnes- og Grafningshreppur hefur ákveðið að bjóðast til að leigja skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps húsnæði á Borg.
Segir Gunnar Þorgeirsson, oddviti sveitarstjórnar, þetta sé gert vegna þess að sveitarstjórn sé búin að missa þolinmæðina yfir að bíða eftir úrlausn á húsnæðisvanda skipulags- og byggingarfulltrúaembættisins. Lengi vel var gert ráð fyrir því að starfsemi embættisins fengi aðstöðu í Héraðsskólahúsinu á Laugarvatni en mikil óvissa ríkir um aðstöðu þar því viðræður við ríkið um leigu á húsnæðinu hafa siglt í strand.
Segir Gunnar að ef embættið samþykki tilboðið muni sveitarfélagið bæta við 200 fermetra húsnæði í væntanlegri viðbyggingu sem ráðast á í vegna leik- og grunnskólans á Borg. Sú viðbygging verður á milli grunnskólans Ljósuborgar og Félagsheimilisins Borgar, þar sem mötuneyti skólans er staðsett, og fengi embættið efri hæð viðbyggingarinnar ef af yrði. Gert sé ráð fyrir að hægt verði að afhenda húsnæðið að tólf mánuðum liðnum.
Sveitarfélagið sér núna um launagreiðslur og bókhald fyrir skipulags- og byggingarfulltrúaembættið og telur Gunnar að mikil samlegðaráhrif hljóti að fást ef embættið verði í sömu byggingu og sveitarstjórnarskrifstofan og símavarsla og þess háttar þjónusta yrði á Borg.