Búið er að opna fyrir skráningar í þolreið sem fram fer á laugardaginn kemur frá Selfossi að Gaddstaðaflötum.
Keppnin er liðakeppni tveggja para og leiðin sem farin verður er í tveimur hlutum, sú fyrri frá Selfossi að Þjórsárbrú og sú seinni frá Þjórsárbrú á Gaddstaðaflatir. Leiðirnar eru um 18 km hvor, svo ekki er nauðsynlegt að hafa sérstaklega þjálfaðan þolreiðarhest, heldur ætti vel þjálfaður reiðhestur að rúlla þessu upp.
Þolreiðin hefst kl. 10 á laugardagsmorgun með læknisskoðun keppnishestanna í reiðhöllinni á Selfossi.
Eftir að seinni hestur hvers liðs kemur í mark á Gaddstaðaflötum verður dýralæknaskoðun, púls mældur og þess háttar. Kl. 17:15 verður síðan verðlaunaafhending á aðalvelli og þangað koma öll þátttökuliðin saman.
Í fyrstu verðlaun eru flugmiðar fyrir tvo á HM2015 í Herning í Danmörku á næsta ári. Veglegir eignarbikarar verða svo veittir að auki.
Skráning í þolreiðina fer fram á landsmot@landsmot.is. Ekkert skráningargjald er innheimt af þátttakendum. Þetta er skemmtileg keppni fyrir breiðan hóp knapa og hesta og eru áhugasamir hvattir til að skrá sig sem fyrst.