Þórður Freyr Sigurðsson hefur verið ráðinn ráðgjafi og verkefnastjóri Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands (AÞS).
Þórður kemur inn í starfslið AÞS við brotthvarf Sædísar Ívu Elíasdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra, en Steingerður Hreinsdóttir hefur verið ráðin til ársloka til að sinna störfum framkvæmdastjóra AÞS. Þórður er ráðinn til sama tíma.
Þórður Freyr er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst og hefur starfað sem viðskipta- og rekstrarráðgjafi síðan árið 2008 hjá Skyggni ehf. í Reykjavík. Hann hefur einnig komið að kennslu við Háskóla Íslands, Endurmenntun HÍ og á námskeiðum í gerð viðskiptaáætlana á síðast liðnum árum. Starfsstöð Þórðar er á Selfossi.
Hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Bifröst árið 2007 ásamt því að hafa stundað nám á stefnumótunarbraut við Háskólann í Kristianstad í Svíþjóð. Þórður Freyr hefur einnig stundað nám við Háskóla Íslands til meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun.
Þórður Freyr er frá Hátúni í Landeyjum, fæddur árið 1982 og er í sambúð Margréti Jónu Ísólfsdóttur. Saman eiga þau þriggja ára dóttur. Þau hyggjast flytja aftur á heimaslóðir á Hvolsvelli.
Fjórir starfsmenn starfa hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands sem er með höfuðstöðvar á Selfossi og starfsstöð í Vestmannaeyjum. Starfssvæði félagsins nær yfir Suðurland frá Lómagnúp í austri að Hellisheiði í vestri ásamt Vestmannaeyjum.
Markmið félagsins er að efla og örva atvinnulíf á Suðurlandi með ráðgjöf og styrkjum til einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila. Félagið er einnig umsjónaraðili með Vaxtarsamningi Suðurlands.