Aðalfundur Oddafélagsins var haldinn í safnaðarheimili Oddasóknar á Hellu í síðustu viku. Þar lét Þór Jakobsson, formaður, af störfum eftir 25 ára formennsku.
Oddafélagið eru samtök áhugamanna um endurreisn fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum.
Þór Jakobsson formaður Oddafélagsins til 25 ára óskaði eftir því að láta af störfum og í hans stað var kosinn Ágúst Sigurðsson. Nýr ritari var einnig kosinn því það hefur tíðkast að sóknarprestur í Odda á hverjum tíma sé ritari Oddafélagsins.
Guðbjörgu Arnardóttur f.v. sóknarprest í Odda var þakkað mikilsvert og ánægjulegt samstarf í nærfellt áratug og við henni tók Elína Hrund Kristjánsdóttir sóknarprestur í Odda.
Fundurinn var fjörugur og skemmtilegur. Farið var yfir sl. starfsár og undirbúningur settur af stað fyrir Oddastefnu sem jafnframt verður 25 ára afmælishátíð Oddafélagsins. Oddastefna verður haldin í maí.