Þórsarar töpuðu fyrir Keflavík, 101-104, í jöfnum og spennandi leik í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld.
Þórsarar byrjuðu vel í leiknum og voru komnir í 16-4 eftir tæpar fjórar mínútur. Þá tók Keflavík 2-13 áhlaup og minnkaði muninn í eitt stig en staðan var 24-23 að loknum fyrsta leikhluta.
Það var fátt um varnir í fyrri hálfleik en jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta og staðan í hálfleik 62-62. Í upphafi 3. leikhluta náði Þór 11-2 áhlaupi og breytti stöðunni í 75-68 en Keflvíkingar voru aldrei langt undan. Gestirnir unnu forskotið jafnt og þétt niður og jöfnuðu 88-88 um miðjan 4. leikhluta.
Þegar mínúta var eftir var staðan ennþá jöfn, 101-101 og Valur Orri Valsson kláraði svo leikinn fyrir Keflavík af vítalínunni á lokasekúndunum á meðan Þórsarar hittu ekki í sóknum sínum.
Tölfræði Þórs: Vance Michael Hall 31 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 18 stig/13 fráköst, Ragnar Örn Bragason 13 stig/6 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 13 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 10 stig/7 stoðsendingar, Grétar Ingi Erlendsson 10 stig/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 4 stig, Baldur Þór Ragnarsson 2 stig.