Þór Vigfússon, fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, lést í gær, 77 ára að aldri.
Þór nam hagfræði í Berlín og sérhæfði sig í milliríkjaviðskiptum. Hann kenndi við Héraðsskólann að Laugarvatni, Menntaskólann að Laugarvatni, Menntaskólann við Tjörnina, síðar Sund, og við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.
Þór var skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands frá 1983 til 1994. Hann var virkur í þjóðfélagsmálum, sat á Alþingi sem varaþingmaður Alþýðubandalagsins 1974, var borgarfulltrúi í Reykjavík 1978-1980 og formaður Umferðarnefndar.
Þá tók Þór þátt í að stofna Draugasetrið á Stokkseyri.
Eftirlifandi eiginkona hans er Auður Hildur Hákonardóttir. Þór eignaðist tvö börn.