Á húsþingi í Menntaskólanum að Laugarvatni í síðustu viku kvað Þórarinn Guðni Helgason frá Gegnishólaparti, nemandi í 2. bekk, sér hljóðs og gaf skólanum glæsilega klukku sem hann vann í ryðfrítt stál.
Þórarinn kvaðst hafa verið á leið í morgunmat dag einn í september þegar honum datt í hug, í í tengslum við annað mál, að merki skólans myndi henta vel sem klukkuskífa. Hann dreif síðan í því að búa til klukku úr ryðfríu stáli, þar sem tölvustýrt tæki skar merkið út. Að því búnu skellti hann baki úr áli á skífuna.
Halldór Páll Halldórsson, skólameistari, tók við gjöfinni við mikinn fögnuð viðstaddra. Halldór Páll þakkaði Þórarni hlýhug í garð skólans og kvað klukkunni verða fundinn staður við hæfi.