Þórarinn Sigurjónsson látinn

Þórarinn Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður og bústjóri í Laugardælum, lést sl. föstudag, 20. júlí, 88 ára að aldri.

Þórarinn fæddist 26. júlí 1923, sonur hjónanna Sigurjóns Árnasonar og Sigríðar Kristjánsdóttur í Pétursey í Mýrdal. Að loknu búfræðiprófi frá Hvanneyri 1943 fékkst Þórarinn við margvísleg störf og rak um árabil viðgerðaverkstæði í Pétursey.

Þórarinn var bústjóri tilraunabúsins í Laugardælum frá stofnun þess 1952 til ársloka 1979. Hann sat í stjórn Verkstjórasambands Íslands frá 1963 til 1975. Í stjórn Kaupfélags Árnesinga frá 1962-1992, þar af formaður frá 1966. Í Stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga frá 1968-1992.

Þórarinn var alþingismaður frá 1974 til 1987 fyrir Framsóknarflokkinn. Sat á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins 1977-1985. Í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1980-1983. Formaður Þingvallanefndar 1980-1988. Að auki voru honum falin fjölmörg önnur trúnaðarstörf í atvinnu- og félagsmálum. Fyrir störf að landverndar- og landbúnaðarmálum var Þórarinn sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

Eftirlifandi eiginkona Þórarins er Ólöf I. Haraldsdóttir. Börn þeirra eru Sigríður, Haraldur, Kristín og Ólafur Þór.

Fyrri greinGlæsilegasta ball sumarsins um næstu helgi
Næsta greinNýr sumarsmellur frá Stuðlabandinu – MYNDBAND