Samkomulag hefur náðst á milli hafnarinnar í Þorlákshöfn og Vegagerðarinnar um að Þorlákshöfn verði varahöfn fyrir Vestmannaeyjaferjuna Herjólf út næsta ár.
Að sögn Indriða Kristinssonar, hafnarstjóra í Þorlákshöfn, er ánægjulegt að niðurstaða skuli hafa fengist í málið en ekkert samkomulag hafði verið í gildi um komu Herjólfs síðan Landeyjahöfn var formlega opnuð. Ekki liggur fyrir hvaða kostnaðarauki er samfara þessu fyrir Vegagerðina.
Reyndar virðist vera ólíkur skilningur á því hvernig skilgreina eigi Þorlákshöfn því G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði að svo væri litið á að Þorlákshöfn væri neyðarhöfn, ekki varahöfn.
Að sögn Indriða felur samkomulagið í sér að Herjólfur hefur forgang að aðstöðu í Þorlákshöfn sem um leið ábyrgist að nauðsynlegum búnaði sé haldið við. Vegagerðin mun borga fast gjald og síðan fyrir hverja ferð. Indriði sagðist vera sáttur við niðurstöðuna en augljóst er að Þorlákshöfn mun gegna mun stærra hlutverki en ráð var fyrir gert.
Í upphaflegum áætlunum Vegagerðarinnar var gert ráð fyrir 3-5% frávikum frá siglingum upp í Bakkafjöru og þá var alveg eins gert ráð fyrir að ferðir féllu niður frekar en að siglt yrði til Þorlákshafnar. Þannig var í raun gert ráð fyrir að fært yrði á hverjum degi til Bakkafjöru.
Það hefur reynst torsóttara en þess má geta að dýpkunarframkvæmdir hófust á ný í byrjun vikunnar.