Nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn urðu í kvöld fyrstir til þess að hafa sigur á toppliði Grindavíkur í Iceland Express deild karla. Lokatölur í Röstinni voru 76-80 Þórsurum í vil eftir æsispennandi lokasprett.
Með sigrinum færðist Þór upp í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Girndavík er sem fyrr á toppnum með 14 stig.
Gulir heimamenn komust snemma í 12-3 en Þórsarar mættu með svæðisvörn í Röstina sem gekk þokkalega en heimamenn leiddu 16-10 að loknum fyrsta leikhluta.
Þórsarar tóku 2-9 sprett í upphafi 2. leikhluta og jöfnuðu metin í 21-21 en leikhlutinn og leikurinn í raun allur einkenndist af varnarleik og mislögðum höndum í sóknarleiknum. Heimamenn leiddu 34-33 í leikhléi aðeins fyrir klaufagang gestanna sem misnotuðu sniðskot um leið og hálfleiksflautan lét í sér heyra.
Grindvíkingar höfðu frumkvæðið í 3. leikhluta en munurinn var aldrei mikill. Staðan var 56-49 þegar 4. leikhluti hófst en hægt og bítandi nálgaðist Þór og fór Baldur Þór Ragnarsson þar fremstur í flokki með magnaðri baráttu og grimmum varnarleik. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum fengu Grindvíkingar á sig tæknivillu og Þór jafnaði 60-60. Upp hófst skemmtilegur lokasprettur þar sem téður Baldur kom Þór í 62-65 með þriggja stiga körfu.
Þegar mínúta var til leiksloka var dæmd óíþróttamannsleg villa á Þórsara fyrir brot á Grindvíkingum í hraðaupphlaupi. Hér var staðan 66-73 fyrir Þór og allt stefndi í öruggan sigur gestanna en Grindvíkingar settu bæði vítin og þrist í kjölfarið og staðan orðin 71-73. Grindvíkingum tókst ekki að loka vörninni, Þór jók muninn í 71-75 í næstu sókn og þegar 23 sekúndur voru eftir setti Baldur Þór niður tvö víti fyrir Þór og staðan 71-77 og björninn þar með unninn. Lokatölur reyndust svo 76-80 Þór í vil og fyrsta tap Grindavíkur þetta tímabilið kom því á heimavelli.
Michael Ringgold var stigahæstur Þórsara með 23 stig, Darrin Govens skoraði 22, Guðmundur Jónsson 10, Marko Latinovic 9/11 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 8, Darri Hilmarsson 5 og Þorsteinn Már Ragnarsson 3.
Ítarlega frétt Jóns Björns Ólafssonar á karfan.is má lesa hér.