Þór Þorlákshöfn tapaði stórt þegar liðið heimsótti topplið Tindastóls á Sauðárkrók í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en síðan fór að halla undan fæti hjá Þórsurum og heimamenn leiddu í leikhléi, 48-38. Sóknarleikur Þórs var skelfilegur í upphafi síðari hálfleiks en liðið skoraði aðeins fjögur stig í 3. leikhluta og þurfa sögufróðir menn að fletta langt aftur til þess að finna aðra eins frammistöðu.
Staðan var orðin 71-42 í upphafi 4. leikhluta og að lokum skildu 34 stig liðin að, 92-58.
Halldór Garðar Hermannsson var eini leikmaður Þórsara sem eitthvað kvað að í leiknum. Hann var stigahæstur með 29 stig, helming stiganna sem Þórsarar skoruðu, og tók 7 fráköst. Nýjasti leikmaður Þórs DJ Balentine II spilaði rúmar 30 mínútur í kvöld og skoraði aðeins tvö stig.
Tölfræði Þórs: Halldór Garðar Hermannsson 29/7 fráköst, Emil Karel Einarsson 10, Ólafur Helgi Jónsson 9/7 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 4, Magnús Breki Þórðason 2, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 2, DJ Balentine II 2.