Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, mun taka sæti í Þingvallanefnd, en tilkynnt var á Alþingi í gær að Þuríður Backman, VG, hefði sagt af sér.
Þessi breyting er hluti af breytingum sem þingflokkur VG er að gera á skipan fulltrúa í nefndir. Þar sem Þingvallanefnd er ekki þingnefnd þarf fulltrúi í henni sem vill hætta að segja af sér með formlegum hætti. Þingnefndir eru hins vegar endurskipaðar í upphafi hvers þings.
Í Þingvallanefnd sitja nú Álfheiður Ingadóttir formaður, Björgvin G. Sigurðsson varaformaður, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.
Eins og sunnlenska.is hefur greint frá hefur Bláskógabyggð óskað eftir því að sveitarfélagið fái fulltrúa í nefndinni en ekkert hefur hreyfst í því máli enn.