Veitingastaðurinn Þrastalundur við Sogsbrú hefur opnað aftur eftir vetrardvala og Selfyssingurinn Björgvin Hreiðarsson hefur verið ráðinn yfirkokkur.
Hjónin Kristín Anný Jónsdóttir og Valgeir Ingi Ólafsson reka staðinn áfram, eins og þau gerðu í fyrsta skipti í fyrrasumar. Ýmsar nýjungar verða í boði á matseðlinum, m.a. verður boðið upp á heimilismat fyrir fólk á ferðinni og er það tilvalið fyrir verktaka og vinnumenn á ferðinni. Öllum réttum á matseðli má líka pakka niður og fara með í bústaðinn.
Að sögn Kristínar gekk rekstur Þrastalundar vel í fyrra en þau leigja húsið og hluta tækja af UMFÍ. Verslunin í anddyri Þrastalundar hefur komið mjög vel út og þar finna sumarbústaðagestir og aðrir ferðalangar ýmislegt sem gæti hafa gleymst heima. Ísinn er alltaf vinsæll enda alltaf veðurblíða við Sogsbrú og á staðnum er selt smurt brauð og ýmiskonar bakkelsi.
Sú breyting verður nú á rekstrinum að Kristín og Ingi taka við rekstri tjaldsvæðisins í Þrastaskógi en það hefur verið lokað undanfarin tvö ár.