Þremur bílum stolið í Þorlákshöfn

Þremur bílum var stolið í Þorlákshöfn um helgina og skemmdir unnar á tveimur bílum til viðbótar í þorpinu auk þess sem brotist var inn í trillu.

Í einu tilvikinu voru það tveir ungir, ölvaðir menn sem tóku bifreið þar sem hún stóð ólæst við Oddabraut. Annar mannanna ók bifreiðinni. Ökuferðinni lauk inni í húsagarði eftir að ekið var á aðra bifreið. Báðir mennirnir voru handteknir og færðir í yfirheyrslu og mikið tjón varð á báðum bílunum.

Annarri bifreið var stolið sömu nótt en hún fannst óskemmd á Eyrarbakkavegi á sunnudag. Þriðju bifreiðinni var stolið aðfaranótt sunnudags frá Selvogsbraut en fannst daginn eftir skammt utan við Þorlákshöfn. Þar hafði hliðarrúða verið brotin og tösku með fartölvu og fleiru, sem var í bifreiðinni, stolið.

Lögreglan biður þá sem veitt geta upplýsingar um þá bifreið að hafa samband í síma 480 1010. Í öllum tilvikunum þrem voru ökutækin ólæst og lyklar aðgengilegir.

Þá voru skemmdir unnar á tveimur bílum við Unubakka 48 í Þorlákshöfn um helgina og í morgun barst tilkynning um innbrot í trillu í smábátahöfninni í Þorlákshöfn. Engu var stolið en mikið rótað auk þess sem pappír hafði verið lagður á hitablásara sem var í gangi.

Fyrri greinVegi við Seyðishóla lokað
Næsta greinDagbók lögreglu: Fullur á fjórhjóli